Breyting á skipulagslögum – umgjörð landsskipulagsstefnu
Lög um stefnur og aðgerðaráætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála.
Í maí síðastliðnum voru samþykkt á Alþingi ný lög um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála. Við gildistöku laganna verða breytingar á skipulagslögum, nr. 123/2010 sem meðal annars snerta gildistíma og ferli við gerð landsskipulagsstefnu.
Lenging gildistíma og aðgerðaáætlun
Í lögunum er kveðið á um að landsskipulagsstefna skuli unnin til fimmtán ára, í stað tólf ára áður. Þá er þar einnig að finna nýmæli um aðgerðaáætlun sem lögð skal fram samhliða framlagningu tillögu að landsskipulagsstefnu og hefur að geyma aðgerðir sem ráðast skal í á fyrstu fimm árum gildistíma landsskipulagsstefnu.
Húsnæðis- og skipulagsráð
Jafnframt er kveðið á um skipun sérstaks húsnæðis- og skipulagsráðs sem vinnur, í samstarfi við Skipulagsstofnun, tillögu að landsskipulagsstefnu ásamt aðgerðaáætlun í samræmi við áherslur ráðherra. Ráðgjafarnefnd, skipuð af ráðherra, verður húsnæðis- og skipulagsráði og Skipulagsstofnun til ráðgjafar og samráðs við gerð tillögunnar eftir sem áður.