6.3.2020

Hvernig stuðlar skipulag að heilsuvænni byggð?

Morgunfundaröð um landsskipulagsstefnu

  • Morgunfundur um lýðheilsu og skipulag

Fjórði fundur morgunfundaraðar Skipulagsstofnunar um landsskipulagsstefnu fór fram fimmtudaginn 5. mars í húsnæði Skipulagsstofnunar í Borgartúni. Að þessu sinni var umfjöllunarefnið tengsl skipulagsmála og lýðheilsu, en í nýjum viðauka við landsskipulagsstefnu verður sett fram stefna og leiðbeiningar um hvernig skipulagsgerð getur stuðlað að bættri heilsu og vellíðan.

Þróun lífsstílstengdra sjúkdóma

Fundurinn hófst á því að Thor Aspelund, prófessor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands og tölfræðingur hjá Hjartavernd, sagði frá þróun lífsstílstengdra sjúkdóma. Thor sýndi tölur um þróun ofþyngdar og sykursýki 2 á Íslandi á síðustu áratugum og bar saman við þróun í öðrum ríkjum. Tölurnar sýna að ofþyngd hefur aukist hratt hér á landi eftir 1990, auk þess sem sykursýki 2 hefur farið vaxandi. Thor benti á að miðað við núverandi þróun gæti meðalævilengd á Íslandi minnkað á næstu 10-15 árum, líkt og gerst hefur í Bandaríkjunum.

Skipulagsáherslur fyrir heilsuvæna byggð

Næst sagði Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsfræðingur á Alta, frá verkefni sem hún vinnur að um þessar mundir fyrir Skipulagsstofnun og tengist mótun landsskipulagsstefnu. Verkefnið felst í að taka saman þekkingu og dæmi um hvernig unnt er að útfæra markmið á sviði lýðheilsu í skipulagsáætlunum. Matthildur nefndi ýmis dæmi um hvernig áherslur í skipulagi geta skapað heilsusamlegt umhverfi sem hvetur til hollra lífshátta og bætir andlega, félagslega og líkamlega heilsu. Slíkar áherslur snúa meðal annars að skipulagi hverfa, útfærslu samgöngukerfa og bæjarhönnun sem tekur mið af því hvernig fólk upplifir og skynjar umhverfi sitt. Matthildur lagði sérstaka áherslu á að í landsskipulagsstefnu yrði hugað að gönguhæfi þéttbýlis og skipulagsáherslum sem hafa margþættan ávinning. Hún nefndi í dæmaskyni grænar aðalgötur sem geta allt í senn haft jákvæð áhrif á landslag borga og bæja, loftslag og lýðheilsu.

Heilsueflandi samfélag

Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis, fjallaði um starf sem unnið er á vegum landlæknis í samstarfi og samráði við ýmsa aðila, þar á meðal sveitarfélög og opinberar stofnanir, undir yfirskriftinni Heilsueflandi samfélag. Starfinu er ætlað að styðja samfélög í að vinna markvisst að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Unnið er að því með ýmsum hætti, meðal annars með lýðheilsuvísum og gátlistum, og eru skipulag og samgöngur meðal viðfangsefna verkefnisins enda mikilvægir áhrifaþættir þegar kemur að heilbrigði og vellíðan.

Lýðheilsa í skipulagi Akureyrarbæjar

Síðastur tók til máls Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar, sem sagði frá stefnu sveitarfélagsins á sviði lýðheilsu og hvernig stefnan endurspeglast í skipulagsáætlunum. Hann fjallaði sérstaklega um yfirstandandi vinnu við heildarskipulag fyrir stígakerfi bæjarins, en verkefnið byggir á markmiði í aðalskipulagi Akureyrarbæjar. Pétur lýsti ýmsum áskorunum sem snúa að því að auka hlutdeild gangandi og hjólandi á Akureyri, svo sem snjóþyngsl og hæðótt landslag. Á hinn bóginn benti hann á að stór hluti íbúa bæjarins býr í innan við 15 mínútna göngufjarlægð frá helstu kjörnum, og enn fleiri sé miðað við hjólafjarlægð, sem gefur tilefni til bjartsýni um að hægt sé að auka hlutdeild gangandi og hjólandi vegfarenda með bættu stígakerfi.

Nálgast má glærur fyrirlesara hér.

Næsti viðburður morgunfundaraðarinnar, sem jafnframt verður sá síðasti, er málþing um landslag sem fer fram þann 30. mars kl. 9-12. Nánari upplýsingar um dagskrá og staðsetningu munu birtast á vefnum landsskipulag.is þegar nær dregur.