22.5.2024

Landsskipulagsstefna ásamt aðgerðaáætlun samþykkt á Alþingi

  • Alþingishúsið

Alþingi samþykkti þann 16. maí, þingsályktun um landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.

Þingsályktunum landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028 ásamt nefndaráliti með breytingartillögum.

Er þetta í annað sinn sem landsskipulagsstefna er samþykkt en hún leysir af hólmi Landsskipulagsstefnu 2015-2026 sem tók gildi árið 2016, þá fyrsta heildstæða stefna um skipulagsmál á landsvísu. Landsskipulagsstefna felur í sér samræmda stefnu ríkisins í skipulagsmálum fyrir landið í heild og tekur til landsins alls og haf- og strandsvæða.

Landsskipulagsstefna

Í nýsamþykktri þingsályktun um landsskipulagsstefnu eru sett fram þrjú markmið stjórnvalda í skipulagsmálum, sem öll byggja á sjálfbærri þróun: A. Markmið um vernd umhverfis og náttúru, B. Markmið um velsæld samfélags og C. Markmið um samkeppnishæft atvinnulíf. Undir hverju markmiði eru settar fram áherslur ásamt tilmælum um framfylgd þeirra fyrir skipulagsgerð á miðhálendi, í dreifbýli, í þéttbýli og á haf- og strandsvæðum.

Áherslurnar byggja á þeim lykilviðfangsefnum sem innviðaráðherra lagði til grundvallar við mótun stefnunnar, til að takast á við þær áskoranir sem við blasa á sviði skipulagsmála. Lykilviðfangsefni þingsályktunar um landsskipulagsstefnu eru eftirfarandi:

  1. Viðbrögðum við loftslagsbreytingum.
  2. Jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis og lífsgæða í byggðu umhverfi.
  3. Uppbyggingu þjóðhagslega mikilvægra innviða.
  4. Landnotkun í dreifbýli.
  5. Landnotkun á miðhálendi Íslands.
  6. Orkuskiptum í samgöngum og fjölbreyttum ferðamáta.
  7. Skipulagi haf- og strandsvæða.
  8. Skipulagi vindorku.
  9. Vernd líffræðilegrar fjölbreytni.

Aðgerðaáætlun

Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt með skipulagsgerð sveitarfélaga, sem skulu samkvæmt skipulagslögum byggja á stefnunni við gerð skipulagsáætlana. Auk þess er sett fram aðgerðaráætlun þar sem lagðar eru fram 19 aðgerðir sem tengdar eru áherslum stefnunnar og er ætlað að ná fram markmiðum hennar. Aðgerðirnar miða einkum að því að gera skipulagsgerð sveitarfélaga skilvirkari með bættu aðgengi að grunngögnum og leiðbeiningum, tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og stuðla að sjálfbærri þróun þar sem tekið er mið af mögulegum áhrifum loftslagsbreytinga á samfélög og innviði.

Kynning og framfylgd

Skipulagsstofnun vinnur nú að útgáfu stefnunnar á aðgengilegu formi sem ætlað er að nýtast sveitarfélögum, ráðgjöfum og öðrum þeim sem koma að skipulagsgerð.