28.10.2013

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að hefja vinnu við gerð landsskipulagsstefnu 2015-2026

Áætlað að tillaga til þingsályktunar verði lögð fram á vorþingi 2015

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur falið Skipulagsstofnun að vinna tillögu að landsskipulagsstefnu. Þau þemu sem komu fram í tillögu til þingsályktunar að fyrstu landsskipulagsstefnu 2013-2024 verða tekin fyrir að nýju en byggt verður á þeim gögnum og sjónarmiðum sem fram komu við vinnslu fyrrgreindrar tillögu til þingsályktunar og uppfærðum forsendum. Auk þess verður fjallað um nýtt viðfangsefni, landnotkun og landnýtingu í dreifbýli.
WP_20130922_005bUmhverfis- og auðlindaráðherra hefur falið Skipulagsstofnun að vinna tillögu að landsskipulagsstefnu í samræmi við ákvæði skipulagslaga, nr. 123/2010 og sbr. bréf ráðuneytisins um það efni. Stofnuninni er falið að gera tillögu að landsskipulagsstefnu sem fjalli um eftirtalin þemu:
    1. Skipulag á miðhálendi Íslands
    2. Búsetumynstur – dreifing byggðar
    3. Skipulag á haf- og strandsvæðum
    4. Skipulag landnotkunar í dreifbýli

Þau þemu sem komu fram í tillögu til þingsályktunar að fyrstu landsskipulagsstefnu 2013-2024 verða tekin fyrir að nýju, það er stefna um skipulagsmál miðhálendisins, stefna um búsetumynstur og dreifingu byggðar og stefna um skipulag á haf- og strandsvæðum. Í vinnu að nýrri tillögu að landsskipulagstefnu verður byggt á þeim gögnum og sjónarmiðum sem fram komu við vinnslu fyrrgreindrar tillögu til þingsályktunar sem og uppfærðum forsendum. Auk þess verður fjallað um nýtt viðfangsefni, landnotkun og landnýtingu í dreifbýli og greind þörf fyrir og eftir atvikum settar fram tillögur um aðgerðir stjórnvalda til að stuðla að sjálfbærri landnýtingu í dreifbýli.

Áætlað er að Skipulagsstofnun skili tillögum sínum til umhverfis- og auðlindaráðuneytis í desember 2014 og að tillaga til þingsályktunar að landsskipulagsstefnu 2015-2026 verði lögð fram á vorþingi 2015.

Skipulagsstofnun hefur hafið undirbúning fyrir gerð tillögu að landsskipulagsstefnu 2015-2026. Liður í því er vinna við verkáætlun, frumgreining á forsendum o.fl. Ráðgjafarnefnd um gerð landsskipulagsstefnu verður kölluð saman á næstu vikum og í framhaldinu verður kynnt opinberlega hvernig fyrirhugað er að standa að gerð tillögunnar.

Bréf umhverfis- og auðlindaráðherra til Skipulagsstofnunar um gerð landsskipulagsstefnu 2015-2026 (pdf skjal).