Úttekt á samráðsferli Landsskipulagsstefnu 2015-2026
Að beiðni Skipulagsstofnunar hefur Capacent unnið úttekt á samráðsferli Landsskipulagsstefnu 2015-2026. Markmið úttektarinnar er að afla upplýsinga sem geta nýst til að styrkja og bæta ferlið við mótun næstu landsskipulagsstefnu, afla upplýsinga um upplifun þátttakenda í ferlinu og að greina hvernig tekist hafi til við að móta heildstæða framtíðarsýn um skipulagsmál á landsvísu.
Úttektin byggir á rýni gagna úr ferlinu af mismunandi stigum samráðs ásamt viðtölum við nokkra af þátttakendum. Alls var rætt við 13 einstaklinga sem höfðu átt talsverða eða mikla aðkomu að samráðsferlinu sem hluti af samráðsvettvang eða ráðgjafarnefnd. Við val á viðmælendum var markmið ráðgjafa Capacent að ná sem mestri breidd úr hópi þátttakenda í samráðsferlinu ásamt því að gætt var að jöfnu kynjahlutfalli og að viðmælendur væru frá ólíkum stöðum á landinu.
Í úttektinni er fjallað um fjögur mismunandi stig samráðs vegna mótunar landsskipulagsstefnu, þ.e. helstu skref í kynningu og samráði við lýsingu landsskipulagsstefnu, greiningu valkosta, útfærslu tillögu og við auglýsta tillögu að landsskipulagsstefnu.